Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda
5.1.2009 | 21:55
Skref í rétta átt.
![]() |
Endurgreiddi 370 milljónir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
5.1.2009 | 10:54
"Nóra" kerlingin í heimsókn.....
Góðan dag og nokkuð syfjaðan.
Ef þið nennið ekki að lesa meira um gubbupestir skuluð þið hætta að lesa þetta blogg strax........
Litla skrudda sem hélt okkur við efnið með explosívum uppköstum föstudaginn síðasta tók upp sömu iðju í nótt.....
. Þessi elska settist bara uppí rúmi móður sinnar þs hún dvelur langdvölum og spúaði eins og hver. Mamma gamla var að sjálfsögðu svifasein enda varla vöknuð og tókst engu að bjarga. Það voru því ennein botnskipti á rúminu og hef ég sjaldan skipt svo ört á rúmi mínu gegum árin. Það sem svona litlir mallakútar geta innihaldið og mér finnst hún auk þess aldrei borða neitt
.
Finnst mér líklegt að Nóra gamla(iðrakveisuveiran Nóró) hafi flutt lögheimili sitt hingað um hríð því það er ekki bara skrudda litla sem hefur orðið fyrir barðinu á kvikindinu. Ég lá í bælinu í sólarhring um helgina með "Gullfoss"......og unglingurinn fékk bæði Gullfoss og Geysi blessaður. Nú eru það bara heimasætan og minn heittelskaði sem Nóra hefur látið í friði hingað til og verður spennandi að sjá hversu lengi þau halda út.....Þessi sama veiruvinkona heimsótti okkur í fyrra með mikilli vanlíðan og upp og niður einkennum. Ef einhverstaðar ætti að vera kvóti þá er það á svona heimsóknum. Þetta er að sjálfsögðu ekkert hættulegt hraustu fólki en getur farið illa með gamalt (held ég sleppi) og veikburða fólk.
Samkvæmt Mbl.is í dag eru 5 sjúklingar í einangrun vegna Nóró veirunnar á Sjúkrahúsi Akureyrar en það er einmitt á þeim stofnunum sem þessi blessuð veira getur valdið verulegum usla. Sama kom uppá Sjúkrahúsi Húsavíkur og Sjúkrahúsinu á Egilsstöðum fyrir nokkru.
Ágætu lesendur þessarar fremur lítið uppörvandi færslu. Farið varlega, sérstaklega í návígi við hana Nóró.
Eigið annars góðan dag .
Þetta mátti lesa á Mbl.is í morgun:
Fimm í einangrun á Sjúkrahúsinu á Akureyri
Fimm eru í einangrun á Sjúkrahúsinu á Akureyri eftir að hafa verið greindir með nóróveiru. Slíkar veirur valda iðrasýkingu og smit berast hæglega manna á milli með saurmengun, hósta eða munnslími.
Einkennin eru yfirleitt slæmar magakveisur, uppköst, niðurgangur og stundum hiti. Hjá heilbrigðu fólki gengur sýkingin jafnan yfir á einum til tveimur dögum en hún leggst þyngra á fólk sem er veikt fyrir. Af þeim sökum er mikið lagt upp úr að einangra fólk, sem ber sýkinguna, inni á spítölunum svo það flytji ekki sýkinguna yfir á aðra, segir Haraldur Briem sóttvarnalæknir.
Algengar sýkingar
Nóróveirur eru algeng orsök iðrasýkinga í þjóðfélaginu. Á undanförnum árum hafa nóróveirufaraldrar í vaxandi mæli sett mark sitt á starfsemi sjúkrahúsa og öldrunarstofnana. Heilu deildirnar geta lokast tímabundið meðan faraldur gengur yfir ef sjúklingar eða starfsmenn veikjast.
Haraldur segir gripið til margvíslegra úrræða til að sporna við útbreiðslu sýkingarinnar. Í venjulegum tilfellum er fólki gert að halda sig heima og vera ekki að umgangast aðra of mikið á meðan sýkingin gengur yfir. Einnig er lögð áhersla á að gæta vel að hreinlæti. Þetta getur verið erfiðara inni á sjúkrahúsum, enda eru það lokaðar einingar. Þar er þess þó gætt að þrífa alltaf vel þar sem einhver sýktur hefur verið.
Þá getur einnig þurft að setja fólk í einangrun líkt og í fyrrnefndu tilfelli á Akureyri. Afar mikilvægt þykir að þeir sem veikir eru heimsæki ekki ættingja eða vini á sjúkrahús eða öldrunarstofnanir enda getur slíkt hæglega komið af stað faraldri innan stofnunarinnar.
2.1.2009 | 13:17
Svona heilsaði 2009
Góðan dag og gott og blessað nýár sem heilsaði með stæl hjá minni fjölskyldu. Skrudda litla vakti heimilismeðlimi í býtið á nýársdag með hressilegri ælupest. Þetta kallaði á "björgunaraðgerðir" strax og gömlu hjónin máttu staulast á fætur í rökkrinu botnskipta á "fjölskyldurúminu" og setja í þvottavél. Þá þurfti að skrúbba þá litlu hátt og lágt því þetta gjörsamlega þeyttist út um allt eins og gosbrunnur
. Það var þó mér til happs að sú stutta var á vallarhelmingi föður síns þegar Geysir hóf raust sína
. Fjölskyldan náði þó að sofna aftur en vaknaði skömmu síðar þegar sami leikurinn var endurtekinn og setja varð í aðra þvottavél
. Nú voru góð ráð dýr og ákveðið að vígbúast því rúmfataskápurinn var óðum að tæmast. Skjólum var dreift í kringum rekkjuna og rúmið klætt handklæðum. Að því loknu sofnuðum við sætt og rótt enda þreytt eftir fjörið á gamlárskvöld og umstangið í morgunsárið. Fjörið hélt engu að síður áfram fram á kvöld hjá skruddu ræflinum sem hélt engu niðri. Þvottavélin gekk allan daginn og gólfin voru skrúbbuð reglulega. Kannski mætti kalla þetta einhverskonar Detox sem virtist heilla landann uppúr skónum á árinu sem leið. Ég reyndar skil engan veginn að fólk skuli borga 200 þúsund krónur fyrir stólpípu í rassinn hjá Jónínu Ben en það er nú allt önnur saga
......
Mikið var kúrt undir teppi fyrir framan ymbakassann í gær. Þar horfðum við ma á upprifjun á fréttum ársins á Stöð 2. Skemmtilega uppsettur þáttur með léttu ívafi. Mér fannst hinsvegar fremur virðingarlaust af þeim að spila eitthvert "Shake baby shake" sveiflulag þegar birtar voru myndir af eyðileggingu jarðskjáltans á Suðurlandi og fólki sem var á engan hátt skemmt í þessum hörmungum. Það sama gerðu þeir þegar birtar voru voru svipmyndir af hörmungum fellibylsins Ike en þá var það Bowie sem var hafður í bakgrunninum með slagarann Sorrow.
Svo er það áramótaskaupið. Menn eru ekki á eitt sáttir um það frekar en venjulega. Mér fannst það allt í lagi en bjóst við meiru. Það hefði nú verið sannkallaður skandall ef skaupinu hefði verið klúðrað þegar úr svo miklu efni var að moða. Kreppan var að sjálfsögðu í sviðsjósinu , nema hvað og borgarmál Reykjavíkur áttu stóran sess í þættinum. Ég var ánægð með þá Guðjón Davíð og Jóhannes í sínum hlutverkum en þeir eru nýliðar í þessu og Kjartan Guðjónsson sem lék Ólaf F var bara frábær. Hvert atriði var þó óþarflega langt en kannski hefði mátt koma að fleiri málefnum ef þau hefðu verið stytt. Ég saknaði t.d silfurdrengjanna í handboltanum og öllu umstanginu kringum það dæmi .
Mótmælendur sáu til þess að landinn varð án kryddsíldar við þessi áramót. Milljónatjón, skrámur,glóðaraugu og sviði í augum var uppskeran. Þarna gengu þeir að mínu mati allt of langt og beindu reiði sinni að saklausu fólki. Þessir mótmælendur skemma líka mikið fyrir þeim sem eru að mótmæla án svona uppákoma.
En þessi áramót eru liðin og nú er bara að bíða þeirra næstu. Árið 2009 er hafið og margt bendir til þess að farsæld okkar verði minna áberandi en áður. Við verðum að vona það besta og muna að hlúa að og hjálpa hvert öðru.
Gleðilegt ár enn og aftur og takk fyrir það gamla .
31.12.2008 | 14:22
Komið að kveðjustund.
Góðan dag, þann síðasta á þessu herrans ári. Já það er ótrúlegt að enn sé komið að kveðjustund. Á svona stundum hvarflar hugurinn tilbaka og maður reynir að rifja upp afrek og uppákomur ársins sem er að kveðja. Það sem stendur uppúr er líklega velheppnuð ferð fjölskyldunnar til mágs míns á Ítalíu en sú ferð hefur verið á áætlun í 10 ár.
Árið var líka sannkallað laxveiðiár og hef ég aldrei dregið eins marga laxa að landi og á þessu ári. Það spillti nú ekki að hluti af þeim voru fengnir á flugu og voru fyrstu flugulaxar frúarinnar.
Öll urðum við árinu eldri og bóndinn átti reyndaar merkisafmæli sem aldrei var haldið uppá að neinu viti en hver veit,kannski höldum við bara uppá það á því næsta.
Börnin döfnuðu vel. Unglingurinn small í 18 árin í desember, heimasætan komin á tíunda ár og litla skruddan á því þriðja og byrjaði í leikskólanum sem var gott fyrir hana og pínu gott fyrir mig líka. Heimasætan stundaði fótbolta og tónlistaskólann grimmt á árinu sem er að kveðja og ætlar að halda því ótrauð áfram á þessu nýja. Unglingurinn byrjar brátt í prófum á sínu þriðja ári í MA og vonum við að það verði farsælt. Hann var líka ötull í fótboltanum í sumar en hefur hvílt sig á honum í haust. Já það er líklega hægt að fá leið á fótbolta.....Skrudda litla brasar í leikskólanum hluta úr degi og brasast síðan með mömmu gömlu þess á milli. Bóndinn hefur verið í vinnunni meirihluta ársins. Hann gaf sér þó tíma í að heimsækja draumaborgina Liverpool og sá samnefnt lið spila á sínum flotta Anfield og leggja erkifjendurna Everton að velli
. Hann notaði sumarfríið í veiði eins og húsmóðirin og veiddi vel eins og margur annar á þessu ári.
Hvað mig varðar þá stundaði ég mína 40 % vinnu á gjörgæslunni, fór í ræktina þrisvar í viku, stjórnaði umferðinni og öngþveitinu heimafyrir og sá um að allir mættu á réttum tíma, á réttan stað með réttu græjurnar. Reyndi að hitta vinkonurnar einu sinni í viku á kaffihúsi og tókst það ótrúlega vel, þá hef ég semsagt farið ca 52. sinnum á kaffihús þetta árið og drukkið annað eins af froðukaffibollum....... Ég fór líka á flugukastnámskeið hjá Pálma og fékk tvo flugulaxa í sumar og er ennþá að drepast úr monti yfir því
.
Auðvitað var ýmislegt annað brallað á árinu en of langt mál yrði að tíunda það.
Vonandi verður komandi ár farsælt þrátt fyrir þrengingar í þjóðfélaginu. Við höldum allavega ótrauð áfram í minni fjölskyldu og höfum vonandi heilsu og kraft til að taka vel á því, á því herrans ári 2009.
Gleðilegt ár öllsömul og takk fyrir samfylgdina á árinu sem er að líða
30.12.2008 | 12:56
Já sæll !
Hvað er í gangi ? Fyrirmynd fótboltans komin á spjöld sögunnar fyrir slagsmál á vafasömum skemmtistað..... Ég er bara alveg miður mín. Allt getur nú gerst Skífuþeytarinn hlýtur nú bara aðeins hafa velgt honum undir uggum. Trúi ekki öðru
.
Ég er hinsvegar ánægð með tónlistasmekk kappans. Coldplay er nefnilega í uppáhaldi hjá mér.
Áfram Liverpool
![]() |
Gerrard gæti átt fimm ára fangelsi yfir höfði sér |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
29.12.2008 | 13:42
Maður ársins ?????
Góðan og blessaðan síðasta mánudag þessa árs.
Renndi rétt í þessu yfir grein Jón Ásgeirs í Morgunblaðinu sem ber yfirskriftina: Setti ég Ísland á hausinn?
Þetta er í raun viðskiptasaga Jóns síðustu 20 árin þs stiklað er á stóru. Hann útskýrir hvað hann á og hvað hann á ekki. Allar tölur sem nefndar eru í erindinu eru í milljörðum og þeir eru ýmist í plús eða mínus eða fyrir og eftir bankahrun. Það sem hann á (fæst af því skuldlaust) er náttúrulega bara klikkun, heilu verslunarkeðjurnar út um allan heim, tryggingafélög, fjölmiðla, eitt stærsta fasteignafélag Norðurlandanna, fjárfestingafélög og svo mætti lengi telja. Ég gerði mér engan veginn grein fyrir hversu umsvifamikið ríki Jóns er í raun og veru. Hann vill ekki taka neina ábyrgð á bankahruninu mikla , Davíð og aðrir seðlabankasveinar eigi það alveg skuldlaust þegar þeir ákváðu að taka yfir Glitni.
Jón vill ekki viðurkenna að hann hafi breytt rangt. Hann segir viðskiptaferil sinn einkennast af sókn og hann hafi byggt upp sín fyrirtæki skv leikreglum. Hann nefnir þó mistök (enginn er fullkominn) eins og Nyhedsævintýrið. Hann viðurkennir líka að hann hafi lagt of mikla áherslu á sóknina en ekki gætt að vörninni. Hann ætlar að taka þátt í að byggja upp íslenskt efnahagslíf af fullri einurð og með svolítið af harðdrægni......
Af þessari grein að dæma er maðurinn bara snillingur og ætti að taka hann hið snarasta í hóp dýrlinga.
Hvað finnst þér ? Er þetta maður ársins ?????
26.12.2008 | 13:11
Jólin koma, jólin fara
Góðan dag og gleðileg jól.
Tími tilhlökkunar er langur fyrir jólin og oft finnst ungum sálum að jólin ætli bara aldrei að koma en þau koma auðvitað fyrir rest og eru þá liðin á augabragði. Jólasteikurnar uppurnar og orðnar velmeltar í yfirfullum maga, gjafapappírinn sem huldi gjafirnar kominn í svartan ruslapoka fram í bílskúr og gjafirnar á víð og dreif um húsakynnin. En þó jólin séu orðin svolítið prílumprjál, þá er þessi tími í mínum huga fyrst og fremst notaleg samverustund fyrir stórfjölskylduna en þeim hefur fækkað í gegnum tíðina.
Við tókum smá forskot á sæluna á aðfangadagskvöld því ég þurfti að fara að vinna eftir kvöldmat. Jólasteikin var því snædd um hálf sex og nokkrar gjafir afhjúpaðar áður en mamma gamla hvarf á braut í vinnuna. Þetta er að mínu mati eini gallinn við vinnu mína þ.e að þurfa að vinna á stórhátíð sem þessari. En allir lifðu þetta af og gleðin hélt áfram þegar mamma gamla skilaði sér af vaktinni um miðnættið.
Heimasætan og skrudda litla eru ánægðar og fengu margar góðar gjafir. Sú yngri var að vonum dálítið æst í öllu þessu pakkaflóði en það var þó mesta furða.
Ég var sérstaklega ánægð með bókina frá húsbóndanum en það var nýja bókin um fluguköst sem segir mér að okkar bíði spennandi veiðitúrar á næsta sumri. Heimagerðar gjafir dætra minna glöddu líka hjartað og svo lét unglingurinn verða af því að spandera gjöf á mömmu gömlu og fannst mér virkilega vænt um það. Svo ég er sæl og ánægð.
Nú er stefnan sett á æskustöðvarnar í blíðskaparveðri .
Haldið áfram að njóta jólanna .
24.12.2008 | 11:58
"Ertu búin að öllu" ?
Góðan og blessaðan aðfangadag.
Í texta Baggalútsmanna segir : "Það koma vonandi jól" og má því segja að von þeirra rætist því allt bendir til þess að blessuð jólin gangi í garð þrátt fyrir allt.
"Ertu búin að öllu" spurningin er vinsæl fyrir jólin. Hef alltaf svolítið gaman að þessari spurningu og velti fyrir mér hvað í henn felst og hvernig henni beri að svara. Hvað er eiginlega þetta "allt" sem þarf að gera fyrir jólin ??? Jú við kaupum auðvitað jólagjafir og sendum jólakort en allt hitt er ég vön að gera allan ársins hring það er að elda, þrífa.........Þetta allt er því kannski orðum ofaukið.
Bernskuminningar af jólum eru okkur öllum dýrmætar. Það sem ég man hvað best er þegar við pabbi komum úr fjárhúsunum á aðfangadag milli kl fjögur og fimm og fundum rjúpnailminn í bland við gömlu góðu þriflyktina (þrif þrífur allt þið munið). Þá voru jólin sko komin. Síðan var náttúrulega tilhlökkunin að opna jólapakkana en gjafir almennt voru ekki algengar í þá daga (mætti halda að ég væri ævaforn ). Oft var biðin eftir pökkunum löng því drjúgur tími fór í að gera rjúpunum skil og síðan þurfti auðvitað að vaska upp en þá setti pabbi gamli upp svuntuna sem mér þótti alltaf svolítið skrýtið enda var hann ekki vanur að vera í eldhússtörfum í þá daga.
En hér sit ég og blogga á náttfötunum meðan hangikjetið sem borða á á jóladag sýður í pottinum. Það má því eiginlega segja að tímarnir hafi breyst nokkuð.
Kæru vinir, ættingjar og þið sem hafið heimsótt bloggsíðuna mína, guð gefi ykkur gleðileg jól og farsæld á nýju ári. Lifið heil.
23.12.2008 | 17:35
Skata var það heillin....
Við Íslendingar erum nú pínu skrýtnir þegar kemur að matarvenjum. Hér á eftir má ma lesa um ástæðu þess að við étum skötu á Þorláksmessu.
Í kaþólskum sið var fasta fyrir jólin og átti þá ekki að borða mikið góðgæti og einna síst á Þorláksmessu. Það átti að vera sem mestur munur á föstumat og jólakræsingum, auk þess sem ekki þótti við hæfi að borða kjöt á dánardegi heilags Þorláks. Þessir matsiðir héldust í stórum dráttum þótt hætt væri að tilbiðja Þorlák sem dýrling. Þó var fólki stundum leyft að bragða aðeins á jólahangikjötinu ef það var soðið á Þorláksmessu.Aðalreglan var samt sú að borða lélegt fiskmeti á þessum degi, en misjafnt var hvað hentaði best á hverjum stað. Á Suðurlandi var sumstaðar soðinn horaðasti harðfiskurinn og frá Vopnafirði er þessi vísa til marks um mataræðið:
Á Þorláksdag í matinn minn
morkinn fékk ég hákarlinn
harðan fiskinn hálfbarinn
og hákarlsgrútarbræðinginn.
Um þetta leyti árs veiddist skata einkum á Vestfjarðamiðum. Hún þótti enginn herramannsmatur ótilhöfð og var því algengur Þorláksmessumatur á þeim slóðum.
Í aldanna rás tókst Vestfirðingum á hinn bóginn að tilreiða úr skötunni mikið ljúfmeti eins og skötustöppuna, og mörgum þótti það óbrigðult merki þess að jólin væru í nánd þegar lykt tók að berast af skötustöppu.
Eftir því sem leið á 20. öld flykktist fólk úr öllum byggðarlögum á suðvesturhorn landsins, Vestfirðingar ekki síður en aðrir. Þeir söknuðu Þorláksmessuskötunnar og margir reyndu að útvega sér hana úr heimahögum. Smám saman smitaði þessi venja þeirra út frá sér og eftir miðja öldina fóru margar fiskbúðir á höfuðborgarsvæðinu að hafa skötu á boðstólum í desember.
Fyrir um aldarfjórðungi fóru svo nokkur veitingahús að bjóða til skötuveislu á Þorláksmessu og þar með varð þetta tíska.Þorláksmessuskata er með öðrum orðum ævagömul á Vestfjörðum en ekki nema nokkurra áratuga gömul á Reykjavíkursvæðinu.
Alþekkt er í heiminum að matréttir sem upphaflega urðu til vegna fátæktar eða skorts á framboði þykja seinna lostæti. Ástæðan er oft það nostur sem hafa þurfti við matreiðsluna til að gera hráefnið gómsætt. Þetta á til dæmis við um ýmsa franska skelfisks- og sniglarétti. Fyrir utan skötuna má á Íslandi nefna laufabrauðið sem þurfti að vera örþunnt vegna mjölskorts á 17. og 18. öld, og rjúpuna sem upphaflega var jólamatur þeirra sem ekki höfðu efni á að slátra kind. (Tekið af vísindavefnum).
Verði ykkur að góðu .
19.12.2008 | 12:24
Jólin koma, jólin koma.....
Góðan og blessaðan daginn.
Jæja það er orðið alltof langt um liðið frá síðustu færslu og ég farin að stirðna í fingrunum.
Augnmein mitt sem ég nefndi í síðustu færslu er varla mein lengur. Ég var Leppur í einn sólarhring en nú sé ég allt sem ég vil sjá og sárið verður ábyggilega gróið áður en ég gifti mig því það er ekkert sem bendir til þess að minn heittelskaði sé á leiðinni á skeljarnar.....
.
Þessi vika er búin að vera í meira lagi skrautleg og hefur að öllu leyti snúist um þessi blessuðu börn mín sem ég elska heitar en allt annað. Klarinettuæfingar, klarinettutónleikar, kóræfingar, stofujól, litlujól,jólasveinastörf að kveldi,jólatrésskemmtun hjá skruddu, foreldraviðtal vegna skruddu,fótboltaæfingar og svo mætti lengi telja. Svo þarf maður náttúrulega að borða, sofa, vinna smá,æfa svo bakið haldi, þrífa, baka, kaupa jólagjafir, pakka inn jólagjöfum......osfrv. Kannast einhverjir við þessa lýsingu ??? Svo spyr þessi sem ekki er farinn á skeljarnar ennþá hvað hefur þú gert í dag elskan??? Hann heldur náttúrulega að ég sé bara í ræktinni og á blogginu. Nei þetta var nú orðum aukið..... En nú sér fyrir endann á þessu og í dag pökkum við í töskurnar og keyrum austur á bóginn þs helginni verður eytt. Það verður yndislegt að hitta fjölskylduna fyrir jólin og fá að skreppa aðeins í fjárhúsin.
En þó svo sumir dagar séu annasamir er líf mitt ekki eins dramtískt og þessara kvenna......
Eigið góða helgi og svo koma blessuð jólin .....
Um bloggið
Gunnublogg
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.4.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 3
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 3
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Tónlistarspilari
Tenglar
Mínir tenglar
- Arnarsetrið Vefmyndavél af arnarhreiðri við Breiðafjörð,smellið á arnarsetrið sem er til vinstri á síðunni.
- Facebook.com
- Mokveiðifélagið Skagafirði Doktorinn,Magnum, Smiðurinn,Djammarinn og fleiri góðir
- Margrét
- Grétublogg
- Hjúkrunarfélag Íslands love,tender,care
- Líkamsræktin Bjargi Blóð,sviti og tár
- Kaupþing money,money,money.....
- Skólamáltíðir nammi,nammi,namm
- norskt dagblað norske nyheter
- Menntaskólinn á Akureyri menntun er máttur
- gamla góða Ríkissjónvarpið þetta gamla,góða
- Stangveiðifélag Akureyrar lax,lax,lax og aftur lax.....
- Fjársýsla ríkisins/vinnustund vaktirnar mínar
Bloggvinir
-
eurovision
-
heidistrand
-
ringarinn
-
jeg
-
jakobk
-
jenfo
-
jonaa
-
larahanna
-
sigro
-
seth
-
siggith
-
stebbifr
-
solskinsdrengurinn
-
tigercopper
-
kermit
-
postdoc
-
ossur40
-
ofurbaldur
-
bjarni
-
bjb
-
gattin
-
dunni
-
esv
-
hallgrimurg
-
heidathord
-
hlynurh
-
lax
-
kollakvaran
-
reisubokkristinar
-
palmig
-
ragjo
-
sedill
-
sesdoc
-
svavaralfred
-
nautabaninn