Slagur frændþjóða

Góðan og blessaðan daginn. Vonandi eigum við eftir að minnast hans sem dagsins sem við lögðum Norðmenn í handbolta á EM og komumst áfram í undanúrslitin. Það væri ljúft Smile.

En verkefnið er erfitt og þetta gæti verið einn erfiðasti leikur Íslands til þessa á mótinu. Norðmenn eygja enn von.

Í norskum fjölmiðlum kemur fram að Norðmenn ætli sér áfram þó svo þeir þurfi að vinna með fjögra marka mun. Þeir biðja svo Balic og Króata um hjálp þeas að Króatar leggi Danina.

Það er alltaf erfitt að þurfa að treysta á úrslit annarra leikja til að komast áfram. Hjá okkur er þetta hinsvegar einfalt: við þurfum að vinna þennan leik. Jú,jú jafntefli dugar en því að stefna á jafntefli þegar við getum unnið? Svo er nú bara komið nóg af jafnteflum og tími kominn á sigur Smile.

Samkvæmt norskum fjölmiðlum er norska liðið að skríða saman eftir tapið á móti Dönum á miðvikudag. Tvedten átti svefnlausa nótt eftir að hafa misnotað víti á lokasekúndunum og er miður sínPinch. Það hlýtur þó að vera uppörvandi fyrir hann að þjálfari hans segist myndi senda hann á vítalínuna aftur ef svipuð staða kæmi upp aftur. Við skulum þó vona að það verði ekkert slíkt í gangi á lokasekúndum leiksins í dag.

Ég er sammála Nygård að það gæti orðið markvarsla Steinar Ege sem gæti reynst okkur skeinuhætt.

Norska karlalandsliðið hefur vaxið gífurlega síðustu árin. Þegar ég bjó í Noregi á árunum 1998 til 2004 voru fáir að fylgjast með karlahandboltanum þar í landi en menn héldu ekki vatni yfir kvennboltanum enda hefur norska kvennalandsliðið í handbolta safnað medalíum um hálsinn í mörg ár.

Norðmenn eru mér kærir en í dag gleymist sá kærleikur um stundarsakir. Sannir Norðmenn segja: Megi betra liðið vinna. Æ þeir eru alltaf svo yfirmáta kurteisir þessar elskur. Ég segi hinsvegar: Áfram Ísland. Við ætlum að rústa þessum leik og senda Norsarana heim með skottið á milli fótanna .

Eigið eftirminnilegan dag Wink 


mbl.is EM: Íslendingar með eitt besta sóknarliðið og komast áfram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þar lágu Norðmenn í því !

Já það skiptast á skin og skúrir í handboltanum á EM. Það hlýtur að vera alveg grátlegt að vera búnir að leiða leikinn frá upphafi og tapa svo á síðustu sekúndunni eins og frændur vorir Norðmenn gerðu í kvöld. Þetta gæti þó komið sér vel fyrir íslenska liðið þar sem nokkrar líkur eru á að Norðmenn mæti vængbrotnir á fimmtudaginn. Von þeirra um að komast í undanúrslitin eru þó nokkur og háð úrslitum annarra leikja svo það gæti gefið þeim bið undir báða vængi. Ef ég man rétt að þá mættum við Norðmönnum fyrir nokkrum árum í leik sem skipti þá litlu máli en okkur miklu og þar skoraði Kjetil Strand 19 mörk og tryggði Norðmönnum sigur. En nú er öldin önnur og ég hef fulla trú á mínum mönnum en leikurinn verður í járnum fram á síðustu sekúndu.  Samkvæmt RÚV þarf Noregur að sigra okkur með 4 mörkum til að komast áfram.  En ég segi bara : Áfram Ísland.
mbl.is Jensen tryggði Dönum sigur gegn Norðmönnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áfram Ísland

 

Góðan og blessaðan daginn !

Þessa dagana safnast þjóðin fyrir framan sjónvarpstækin og fylgist með strákunum sínum á EM í Austurríki.

Eftir fyrstu tvo leikina voru landsmenn fúlir Angry því strákarnir þeirra stóðu sig ekki sem skyldi og glopruðu niður unnum leikjum.

Það birti hinsvegar upp þegar piltarnir rúlluðu yfir Danina og enduðu efstir í riðlinum. Þjóðin fyltist stolti á ný og sest því borubrött fyrir framan sjónvarpstækin á eftir til að fylgjast með strákunum sínum spreyta sig gegn KróötumSmile.

Króatar og Íslendingar hafa aðeins mæst tvisvar sinnum áður í handbolta og höfðu þeir fyrrnefdu sigur í bæði skiptin.

Króatar hafa safnað medalíum um hálsinn síðustu árin. Þeir eru tvöfaldir Ólympíumeistarar (1996,2004), heimsmeistarar og þrefaldir silfurhafar á HM.

Það eina sem þá vantar er EM gullmedalía en þeir töpuðu fyrir Dönum í úrslitaleiknum á EM í Noregi fyrir tveimur árum. En við skulum ekki gleyma því að á góðum degi eru strákarnir okkar ósigrandi, líka á móti liði eins og Króatíu. Vonandi eigum við slíkan dag í dag.

                                                            Áfram Ísland Wizard

 


mbl.is Leikmenn Króatíu - kynning
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Orðið

Góðan og blessaðan daginn og gleðilegt nýtt herrans ár og hafið þökk fyrir það liðna. Það liðna sem einkenndist af einu Orði.  Sjöstafa Orði, Orði sem er ekki einu sinni íslenskt heldur bölvuð enskusletta, Orði sem hljómaði í eyrum allra Íslendinga frá morgni til kvölds alla daga liðins árs. Nei þetta er ekkert orðaspil, ekki Alias,Kollgátan eða hvað þau öll heita. Þetta var og er blákaldur veruleikinn.

Svo leið þetta skrýtna ár og maður vonaði að eitthvað nýtt orð myndi kannski klingja í eyrum okkar á því nýja þannig að við gætum lagt Orðið til hliðar og farið að tala um eitthvað annað. En það var vonin ein.

Það herrans nýja tvöþúsund og tíu hafði rétt heilsað íslenskri þjóð þegar Orðið glumdi að nýju í eyrum okkar og nú sem aldrei fyrr.Forsetinn fékk Orðið í byrjun árs og lá undir feldi með því í fimm dægur og kastaði því að lokum til þjóðarinnar og sagði þið megið ráða hvað gera skal við þetta bévítans Orð og þar við sat. Við urðum nafli alheimsins á nokkrum klukkustundum. Mörg orð voru látin falla, þau voru af öllum tegundum og gerðum, bæði góð og slæm en uppúr stóð Orðið, þetta eina og sanna sem er ekki einu sinni til í íslenskum orðabókum. Flest vildum við sjálfsagt kasta því langt út í hafsauga en það er nú hægara sagt en gert og myndi líklega valda okkur meiri ógæfu en við  þegar erum í. En nú hefur þjóðin Orðið og vona ég að hún nýti nú tækifærið. Eigið góðar stundir. 


Það eru að koma jól

Gott og blessað kvöldið.

Já nú styttist sannarlega í blessuð jólin og allt það yndislega sem þeim fylgir. Jólaundirbúningi er senn lokið. Rjúpurnar þiðna á bílskúrsgólfinu og jólatréð er komið í sturtuklefann en ákveðið var að sleppa jólabaðinu að þessu sinni, vonandi kemur það ekki að sök Wink.

Margt hefur breyst í jólahaldi síðustu áratugina en við reynum þó að halda í gömlu hefðirnar eins og hægt er. Í minningunni komu jólin hjá mér þegar við pabbi komum úr fjárhúsunum seinnipart aðfangadags og á móti okkur kom rjúpnailmurinn úr eldhúsinu hjá mömmu. Í þá daga var konfekt munaður sem og rauð epli sem keypt voru í stórum kassa með fjólubláum pappa á milli eplaraðannaHappy. Jólapakkaflóð þekktist ekki en maður var innilega þakklátur fyrir það sem maður fékk og þótti best að fá bækur til aflestrarHappy. Oft var nú erfitt að bíða þess að pakkarnir yrðu opnaðir því auðvitað þurfti að klára uppvaskið fyrst að jólamáltíð lokinni. Þetta var eini dagurinn árinu sem pabbi gamli hnýtti á sig svuntuna og mundaði uppþvottaburstann en þann sið hef ég valið að sleppa á mínu heimili....Wink Að lokinni ljúffengri rjúpnamáltíð á hverju aðfangadagskveldi var karl faðir minn vanur að segja eitthvað á það leið að aldrei hefðu nú rjúpurnar bragðast eins vel og þetta áriðWink. Þess má geta að fyrrnefndur karl faðir minn varð 79 ára í gær og hann gengur ennþá til rjúpna og tryggir að rjúpur eru á jólaborði fjölskyldunnar. Ótrúleg elja það.

Já það er gott að ylja sér við ljúfar jólaminningar frá bernskuárunum í Jökuldalnum.

En nú er öldin önnur og aðfangadagur á því herrans ári 2009 rennur senn upp. Ég óska vinum og ættingjum nær og fjær gleðilegrar hátíðar og um leið þakka þeim sem hafa litið inná síðuna mína.

 

 


Tvær flugur í einu höggi

Þetta kallar maður nú að slá tvær flugur í einu höggi.... Þetta rauða spjald var hinsvegar dálítið tæpt. En hvað sem öllu líður að þá verður róðurinn ennþá þyngri fyrir mína menn án Argentínumannsins.
mbl.is Mascherano afplánar fjögurra leikja bann á sjúkralistanum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Senn koma jólin

Gott kvöld góðir hálsar.

Nú styttist sannarlega til jóla og skammdegismyrkrið eykst jafnt og þétt. Það er líka frekar dimmt í sálu okkar Liverpoolmanna enda enn einn tapleikurinn staðreynd og það á heimavelliAngry

Teygt úr tánum á Anfield

 

 

 Draumurinn um toppsætið fer hratt kulnandi og nú fer þetta að vera spurning um að okkar menn nái 4. sætinu til að tryggja sér þátttökurétt í meistaradeildinni. En það er bara að reyna að gleyma þessum leik og hugsa um þann næsta sem er rétt handan við hornið eða á miðvikudag gegn Wigan. Það var auðvitað ljós í myrkrinu að toppliðin höluðu inn fáum stigum í þessari umferð.

 

 

 

 

     Jólaundirbúningurinn er í góðum gír og bærinn skartar sínu fegursta, baðaður jólaljósum. Það var enginn kreppubragur á Glerártorgi í dag og hvergi stæði að fá. Nú streyma jólasveinarnir líka til bæjarins, Stekkjastaur og Giljagaur eru þegar mættir á svæðið og von er á Stúfi karlinum í nótt. Litla skrudda er búin að stilla Dóru stígvélinu sínu í gluggann, sem hefur gefist vel. Heimasætan sem trúir passlega mikið á jólasveininn stillti þrátt fyrir það upp uppáhaldstakkaskónum sínum í gluggann sinn og það fór heldur ekki fram hjá sveinunum góðuSmile. Kosturinn við þetta uppátæki er einna helst að dömurnar sem oftast eru tregar í taumi þegar fara skal á fætur á morgnana,spretta nú á lappirnar til að kíkja í skófatnaðinn. Já er á meðan er þessa þrettán morgna....Wink

Snæfinnur snjókarl

 

Hvorug hefur fengið kartöflu í skóinn ennsem komið er og tel ég líklegt að jólasveinarnir séu brjóstgóðir á krepputímum.... Annars líst litlu Skruddu ekkert meira en svo á þessa karlfauska og er smeik um að skyrgámur klári skyrbirgðir heimilisins og Kertasníkir steli öllum kertunum okkar..... Heimasætan klikkar ekki á því frekar en venjulega og  er klár með jólagjafaóskalistann sem er svolítð í anda 2007 gullársins mikla...... en á honum má m.a finna ósk um ferð til Spánar eða Ítalíu, Nintendó rándýra leikjatölvu, ferð á Anfield.... hverjum langar ekki þangað þrátt fyrir allt ???.... En... hvað það verður veit nú enginn, vandi er um slíkt að spá en eitt er víst að alltaf verður ákaflega gaman þá..... Happy og svo er jú í lagi að óska sér .....Wizard.

Eigið gott sunnudagskvöld sem er það þriðja í aðventu á þessu herrans ári ! 

 

 


Flughræðsla eða ?

Gott og blessað sunnudagskvöldið !

Við hjónakornin brugðum okkur af bæ um helgina og tókum stefnuna á Reykjavík ,loftleiðina. Þetta var yndælis helgi og hefði verið 100 % afslöppun ef við hefðum sleppt Kringluröltinu og ringuleiðinni sem þar réði ríkjum á laugardaginn. Bjuggum á Hótel Hilton á vildarpunktum og létum dekra við okkur á alla kanta. Á laugardagskveldinu fórum við á jólafagnað Geðlæknafélagsins en þar bar hæst fyrirlestur vinnusálfræðingsins Eyþórs Eðvaldssonar sem hitti vel í mark á krepputímum. Semsagt yndisleg ferð í alla staði. En þá kem ég loksins að mergi málsins þ.e flughræðslunni. Já nú verð ég bara að viðurkenna að ég er líklega flughrædd W00t. Ég veit ekkert hræðilegra en þegar rödd flugstjórans glymur í hátalarakerfinu og segir: góðir farþegar, við lendum líklega í smáókyrrð en ég vona að það verði ekkert alvarlegt..... eða góðir farþegar það er strekkingsvindur í Reykjavík og því gætu orðið smá ókyrrð í lendingunni, ég finn hvernig ég spennist öll upp, herði ennfrekar á öryggisbeltinu sem skerst nú inn í merg og bein og held mér svo fast í sætið fyrir framan mig að hnúarnir hvítna....Frown á meðan situr minn heittelskaði með hökuna uppí loft og hrýturSleeping. Ó hvað hann á gott á meðan ég sit stíf og rifja upp helstu stórslys í flugsögu ÍslandsWoundering. Er þeirri stund fegnust þegar tilkynnt er um lækkun á flugi og svo verður bara spennufall þegar fast land er undir vélinni. Og þó svo maður hugsi flugáhöfninni oft þegjandi þörfina á meðan á hristingnum stendur að þá er maður ekkert nema elskulegheitin þegar flugvélin er yfirgefin og þakkar flugfreyjunni með virktum fyrir ferðina, slíkur er feginleikinn yfir að flugferðinni sé lokið. Þegar ég svo minnist á þessa flughræðslu mína við minn heittelskaða segir hann að ég fljúgi ekki nógu oft.... nú ef sú er raunin að þá er víst bara eitt ráð til við því.....

 


Dagur í lífi þreyttrar húsmóður

Góðan og blessaðan gærdaginn.... Smile

 Hentist fram úr rúminu í skammdegismyrkrinu mikla en hægði aðeins á mér vegna bakeymsla Angry. Hljóp á milli rúma og vakti börnin mín stór og smá . Unglingurinn fékk extra blíða vakningu enda afmælisdagurinn hans. Rak stuttu síðar á eftir heimasætunni sem eyðir orðið meiri tíma en ég fyrir framan baðspegilinn þrátt fyrir lágan aldurWink.

Skóflaði morgunmatnum í mig og aðra heimilismeðlimi og kvaddi stuttu síðar fjölskyldumeðlimi þegar þeir hurfu á brott hver á eftir öðrum í hina ýmsu stofnanir bæjarins sem nú fá allar að finna fyrir niðurskurðarhníf Steingríms og Jóhönnu. Skutlaði Skruddu litlu á leikskólann en brunaði sjálf í ræktina eftir að hafa tekið tvær Dóló eins og sönnu íþróttafólki sæmir, til að slá á bakverkinn. Kom heim eins og nýsleginn túskildingur og hringdi í góða vinkonu með det samme og bauð í lönsjSmile. Sátum við kertaljós og sötruðum búst og reyndum að leysa vandamál þjóðarskútunnar en varð lítið ágengt. Dreif allar tvær smákökusortirnar á borðið sem ég barðist við að baka kvöldinu áður.

En tíminn leið alltof hratt og þá var stefnan tekin á sjúkrahúsið með heimasætuna í læknisheimsókn og blóðprufu. Uppáhald allra barna... Vorum rétt komnar heim þegar næsta heimsókn kom og meira var etið af smákökunum góðu og drukkið vel af Gevalía með sem var á hrikalega góðu tilboði í Bónus fyrir skömmu. Þessi góði gestur kom reyndar færandi hendi með hrútaberjahlaup og ég leysti hana líka út með gjöfum á formi laxfisks, einn af mörgum sem ég veiddi í sumar. Já, já má nú aðeins monta mig Whistling...... Gestagangurinn hélt áfram en nú voru það tengdó sem duttu innúr dyrunum. Gaf tengdamömmu að sjálfsögðu að smakka á smákökunum góðu sem nú var nú farið að ganga hratt á.....Í millitíðinni sótti ég Skruddu litlu á leikskólann og tók Stígasleðann með en ég gleymdi að segja frá því að snjónum kyngdi niður í allan gærdag og nótt. Skrudda vildi auðvitað ekki sitja sleðanum á leiðinni heim heldur draga hann svo heimferðin tók drjúgan tíma enda komið 25-30 sm lag af nýföllnum snjó og erfitt fyrir stutta fæturWink.

Rétt fyrir sex var brunað í Hagkaup en heimasætunni hafði verið lofað verðlaunum þs hún stóð sig svo afskaplega vel hjá doksa. Það fór hinsvegar svo að hún fann ekkert en ég kom samt út 20.þúsund krónum fátækari þs ég splæsti í nokkrar jólagjafir og afmælisgjöf fyrir unglinginn en fyrir valinu varð bókin Mannasiðir eftir Gilzenegger og konfektkassi af bestu gerð svona ef honumn skildi sárna það að mamma hans væri að gefa honum mannasiðabók....... Splæsti líka pítsupartíi á hann og vini hans en gleymdi að hugsa um kvöldmat fyrir restina af fjölskyldunni svo samlokugrillið var kynt eins og oft áður í amstri dagsins Blush....

Minn heittelskaði datt innúr dyrunum á slaginu sjö í delux samlokurnar. Eftir þessa dýrindismáltíð var þvotti skóflað af ofnum (það var jú enginn þurrkur í gær) inní skápa, þvotti hent í þvottavél og þvotti mokað úr þvottavél á ofna. Þá voru  teknar nokkrar nettar löngu tímabærar strokur yfir eldhúsgólfið , hornin fá þó að bíða þangað til nær dregur jólum.

Þegar klukkan var orðin hálfellefu að þá var það sófinn, handklæðið og heilög stund eins og alltaf á miðvikudagskvöldum þegar Greys fer í loftið Tounge. Þegar þeirri tárastund var lokið var fátt annað eftir en að kasta sér á koddann og hlaða batteríðið fyrir næsta dag Sleeping

 


Flensa og fótbolti

Gott og blessað kvöldið.

Ég get nú ekki sagt að ég sé löt að eðlisfari en bloggletin hefur þó alveg verið að fara með mig síðustu vikurnar. Ekki veit ég hvað það er en stundum fallast manni bara hendur og andinn neitar algjörlega að koma yfir mann. Það er þó engin sérstök andagift sem dregur mig inní bloggheima í kvöld heldur langaði mig bara að láta vita að ég væri bara nokkuð brött og ekki komin með flensu að neinu tagi eins og hálf þjóðin. Ég er nú í þessum blessaða sprautuforgangshóp en hef ennþá ekki safnað kjarki í að fá stungu í upphandlegginn. Gerði reyndar heiðarlega tilraun í dag en þá voru þessir 30 skammtar sem bárust í hús uppseldir svo ég gat frestað stungunni um stund. Ekki misskilja mig ég geri mér fulla grein fyrir alvarleika málsins og alltof margir hafa orðið fyrir barðinu á þessari ömurlegu flensu. Var reyndar búin að ákveða að sleppa bólusetningunni þar sem ég er hraust að eðlisfari en nú eru farnar að renna á mig tvær grímur í sambandi við þá ákvörðun. En nóg um það.

Það er sárt að horfa uppá fótboltaliðið mitt þessa dagana. Liverpoolliðið er ekki svipur hjá sjón og tapleikirnir í úrvalsdeildinni og meistaradeildinni orðnir alltof margir. Um næstu helgi eiga þeir síðan erfiðan leik fyrir höndum á móti United á Anfield. Veit hreinlega ekki hvort ég hef taugar til að horfa á þann leik. Sundboltamarkið fræga sem við fengum á okkur á móti Sunderland er sjálfsagt orðið heimsfrægt og fer á spjöld sögunnar sem markið sem ætti aldrei að hafa talið og gefið 3 stig. Dómarinn var líka sendur niður í neðri deildir en ekki er víst að það hjálpi okkar mönnum mikið.

Annars er allt gott hér norðan heiða. Veturinn ákvað að kveðja okkur um stund enda var hann fullsnemma á ferðinni. Fjölskyldan er heilsuhraust og allir una glaðir við sitt. 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Gunnublogg

Höfundur

Guðrún Una Jónsdóttir
Guðrún Una Jónsdóttir
Eiginkona, móðir, stundum svolítið þreytt húsmóðir, ekki amma ennþá , ofurhjúkka í 40 % starfi og veiðikona.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 4
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Tónlistarspilari

Christina Agulilera - Beautiful
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

336 dagar til jóla

Nýjustu myndir

  • wpid-weight lifting
  • IMG_6662
  • IMG_1090
  • IMG_1144
  • 75808_700_w

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband