Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda
11.8.2008 | 23:42
Clapton klikkar ekki.....
Heilt og sælt veri fólkið.
Við vorum að detta innúr dyrunum eftir góða dvöl á suðvesturhorninu. Byrjuðum á því að fara á tónleika Erics Claptons í Egilshöllinni eins og reyndar hálfur Akureyrarbær og vorum ánægð. Ég hefði reyndar viljað heyra meira af þessu gamla, góða og aðeins minni blús en ég er sátt. Clapton heldur sér ótrúlega vel og ógeðslega var gítarleikarinn í bandinu hans flottur, góður á gítarinn og fjallmyndarlegur.....Clapton leyfði honum líka að njóta sín.Trommarinn var eins og hann væri á einhverju örvandi og það sama á reyndar við gamla brýnið á hljómborðinu, nei þeir voru frábærir. Skipulagið í höllinni var ótrúlega gott þó svo hitinn hafi verið þrúgandi á tímabili. Það var líka mjög gaman að hlusta á Elleni Kristjáns en hún hitaði upp ásamt fjölskyldu og vinum að mestu frumflutt lög.
Efir að hafa heimsótt Ikea að beiðni heimasætunnar, innbyrgt sænskar kjötbollur og keypt helstu nauðsynjar þar á bæ var haldið í Húsdýragarðinn sem líka var að ósk heimasætunnar, greinilegt hver er húsbóndi á þessum bæ. Þar var glatt á hjalla eins og venjulega og frekir kalkúnar og geðillar kýr krydduðu tilveruna aðeins..... Gaypride gangan var líka á prógramminu en verður að bíða betri tíma. Leiðinlegt að missa af Palla á bleika trukknum en einhverju verður að fórna.
Að kveldi laugardags var höfuðborgin kvödd og keyrt í Borgarfjörðinn nánar tiltekið Fossatún þar sem fellihýsinu var tjaldað á methraða og börnunum komið í svefn. Sunnudeginum var síðan eytt í að skoða alla fegurðina í fyrrnefndum firði en hún er að mínu mati hvergi meiri nema vera skyldi í Eyjafirðinum okkar. Veiðiárnar í Borgarfirðinum eru líka óteljandi en heldur voru þær nú vatnslitlar enda lítið rignt á þessum slóðum í sumar.Tjaldstæðið Fossatún sem stendur á bökkum fögru Grímsár var með öllum þægindum og ekki spillti að þar voru 5 stykki trampolín og rennibrauta-rólu klifurgrind sem gladdi hjörtu þeirra systra mikið.
Semsagt vellukkuð ferð. Núna verður stoppað heima í fáeina daga, batteríin hlaðin, þvotturinn þveginn og síðan verður stefnan tekin á Jökuldalinn og síðan haldið áfram hringinn með nokkurra daga stoppi við Rangá og Iðu þs veiðistangirnar verða mundaðar.
Hafið það gott .
7.8.2008 | 23:02
Árlegri Keldnaferð lokið
Sælt veri fólkið að kveldi sjöunda ágústs. Verslunarhelgin því liðin og kvöldrökkrið skollið á. Bæjarstjórinn ánægður með Eina með öllu og allt undir....hjartalaga umferðaljós slógu í gegn og Margrét Blöndal hlýtur að fá næstu fálkaorðu eða hvað þetta er nú kallað. Lokahátíðin á Akureyrarvelli var glæsileg og flugeldasýningin var í einu orði sagt frábær ,þökk sé Saga Capital.
Já og unglingurinn skilaði sér frá Vestmannaeyjabæ. Þetta var víst alveg hrikalega gaman en af fötum kappans að dæma nokkuð blautt á köflum. Hann lét sig vaða niður brekkuna svokölluðu og endaði í kröppum dans í drullusvaði sem líka mátti sjá á fötum piltsins. Þvottavélin hefur því gengið sleitulaust í dag og ekki sér högg á vatni nú þegar klukkan er að nálgast ellefu að kvöldi.
En eins og fyrirsögnin bendir til er árlegri Keldnaferð stórfjölskyldunnar lokið og heppnaðist vel. Sléttuhlíðarvatn var nokkuð gjöfult í ár og fengust um 130 fiskar í veiðarfæri Ellingsen. Mín kom náttúrulega ekkert nálægt þeirri slátrun en sleit upp nokkra urriða á nýju flugustöngina sína og er því nokkuð brött með sig núna. Berjaspretta var með eindæmum góð og voru sumir drjúgir í mónum. Matseðillinn samanstóð því af silungi í hinum ýmsu myndum og berjum í eftirrétt ýmist með rjóma eða á grautarformi. Gamla Keldnahúsið má muna sinn fífil fegurri en hefur sinn sjarma því þar er ekkert rafmagn og ekkert rennandi vatn. Þá er maður alveg laus við að vera í gemsasambandi og ríkti því mikill friður á Keldum.
Framundan eru ferðalög og fyrst er stefnan sett á Clapton í Egilshöllinni á morgun .
Læt þessu lokið í bili og býð góða nótt.
1.8.2008 | 15:47
Í sól og sumaryl....
Góðan og blessaðan daginn, þann fyrsta í verslunarmannahelgi.
Veðurblíðan heldur áfram á Norðurlandi og nú er svo komið að ég hef ekki lengur tölu á heitu dögunum en ég ætla að skjóta á rúma viku.
Verslunarmannahelgin gengin í garð. Akureyringar ætla að vera á rómantísku nótunum þetta árið. Þessi rómantík hefur gengið svo langt að Magga Blöndal er búin að umbreyta rauðu umferðaljósunum og eru þau hjartalaga eftir þessa hugdettu Margrétar. Nú stoppa menn örugglega á rauðu á Akureyri og gæti þetta því verið liður í bættu umferðarátaki
.
Dagskrá hátíðarinnar ein með öllu er víst með "eightis"fíling núna og það verður forvitnilegt að vita hvernig gestir og gangandi bregðast við þessari nýbreytni. Ungmennum verður ekki úthýst úr bænum og fá að tjalda ofan Akureyrar. Þingvallastrætið hefur verið skreytt svörtum ruslatunnum með ca 3 ljósastaura millibili og eru þær hlekkjaðar við staurana, bara s vona" just in case" ef æði rennur á gesti hátíðarinnar. Svo er að sjá hvort ruslið ratar rétta leið. Þetta er þó tilraun til bættrar umgengni.
Flottasta uppátækið var þó þökulagning Ráðhústorgs og á Sigurður kaupmaður heiður skilið fyrir þetta framlag til hátíðarinnar. Steypan í miðbænum hefur alltaf pirrað mig og var vissulega skref afturábak. Vona að bæjaryfirvöld sjái að sér og leyfi grasinu að vera til frambúðar þó svo það kosti smá fyrirhöfn því auðvitað þarf að fjarlægja steypuna undan þökunum ef mín með sína grænu fingur man rétt.....
Það stakk mig þó að á auglýsingabæklingi hátíðarinnar sem sendur var í hvert hús voru svokölluð gagnleg símanúmer en það voru ma símanúmer Aflsins systursamtaka Stígamóta og Neyðarnúmer fyrir fórnarlömb nauðgunar. Þetta segir sína sögu og er bara ósköp sorglegt.
Svo er bara að sjá hvernig til tekst með hjartalaga umferðaljós og eightís stemningu. Eitt er víst að veðurguðirnir verða okkur hliðhollir en það er vissulega stór þáttur í velgengni stórhátíðar sem þessar.
Unglingurinn á heimilinu er kominn til Eyja ásamt fylgdarliði. Mamma gamla er pínu óróleg en fær að hringja milli kl 17 og 18 til að taka stöðuna á piltinum......
Eigið góða helgi öll sömul
27.7.2008 | 20:51
Langt um liðið
Gott kvöld !
Já það er sannarlega langt um liðið og ýmislegt á dagana drifið síðan síðast.
Við fjölskyldan drifum okkur austur á æskuslóðir húsmóðurinnar og dvöldum þar í góðu yfirlæti hjá foreldrum mínum. Drjúgur tími fór í veiðar bæði í vötnum og ám austan fjalla.

Þarna má sjá tengdapabba karlinn öðru nafni Jóa máf gera að aflanum sem fékkst í Ellingsen veiðarfærin vinsælu uppí svokölluðu Ánavatni en það liggur uppí Jökuldalsheiðinni.

Þarna má svo líta karl föður minn öðru nafni Jón Hall eða Mælir með þá stærstu sem álpaðist í fyrrnefnd veiðarfæri en hún vóg um 5 pund. Það hefði nú ekki verið leiðinlegt ef þessi kella hefði villst á færið hjá mér en ég barði vatnið talsvert bæði með flugu og spún án þess að verða hið minnsta vör. Alls fengust 27 bleikjur, allar gullfallegar.
En mín gafst ekki upp og eftir að hafa kysst bóndann bless en hann þurfti að mæta í vinnu norður á mánudeginum varð hún sér útum veiðidag í litlu Laxá á Fossvöllum en það er upprennandi laxveiðiá austan Alpa sem veiðifélagið Strengir eru að koma á kortið ásamt fleiri ám í Jökulsárhlíðinni ss Kaldá og svo gömlu góðu Jöklu sem nú er búið að beisla.

Þarna eyddi ég heilum degi með sjálfri mér og kastaði flugunni af mikilli snilld að mínu mati......Fyrri hlutann varð ég nú líðið vör fyrir utan einu sinni í ósnum að hljóp á snærið hjá mér en þann fisk sá ég aldrei og hann lifir vonandi góðu lífi í dag. Seinnipartinn fór ég síðan upp að fossi en þar varð ég að kasta spúninum því aðstæður eru erfiðar til fluguveiða þar sérstaklega fyrir svona ómaga eins og mig. Fékk fljótlega lítinn urriða svona rétt til að koma blóðinu á hreyfingu og í næsta kasti var rifið hressilega í tauminn en það reyndist vera 4 punda sjóbirtingur sem ég var æði stund að koma á land en skilyrði til löndunar eru fremur erfið. Karl faðir minn var reyndar með í ferð en sat á hinum bakkanum á strigaskónum og hafði gaman af.
Fékk svo laxastúf skömmu síðar í Sleppingahylnum og varð því miður að aflífa ræfilinn því hann var særður eftir Íslandsspóninn. Þennan hyl barði ég með flugu tvívegis fyrripartinn og varð ekki vör. Ég á því ennþá eftir að upplifa fyrsta flugulaxinn og er það ekkert áhyggjuefni þs mín bíða margir veiðitúrar í ágústmánuði.
Kastaði líka flugu í gömlu góðu Jöklu sem nú lygnast um dalinn tær,fögur og saklaus.

Í henni eru fjölmargir fallegir veiðistaðir og vonandi á eftir að kvikna líf í henni uppeftir öllum Jökuldalnum en þau kvöld sem ég kastaði var allt með kyrrum kjörum og hvergi fisk að sjá. Minn heittelskaði varð þó var við líf í svoköllluðum Svelg en þar voru á ferð bleikjur úr heiðinni.
Semsagt yndislegir dagar á gamla ættaróðalinu í algjörri bongóblíðu eins og er nú alltaf þarna fyrir austan. Það segir allavega karl faðir minn og hann lýgur nú ekki......
18.7.2008 | 15:08
Helgarhugleiðingar
Góðan og blessaðan daginn enn og aftur.
Tíminn líður hratt á gervihnattaöld....Já það er ekki orðum ofaukið. Minn heittelskaði kominn á fimmtugsaldur, sumarið hálfnað að minnsta kosti og daginn styttir óðum....En við höldum ótrauð áfram og þessa helgina er stefnan sett á Jökuldalinn þs mín sleit barnsskónum. Báturinn og fellihýsið verða með í för og bílinn orðinn sneisafullur af nauðsynjavöru eins og grillmat og veiðistöngum. Vonandi gefst tími til að taka fram flugukaststöngina og halda áfram æfingum. Við erum vön að renna uppá Jökulsdalsheiði og renna fyrir fisk í Sænautavatni og kíkja svo í lummur og kakó á Sænautaseli hjá Lilju húsmóður og hennar fólki. Þar er yndislegt að koma .
Það féll í fremur grýttan jarðveg þegar ég lét þau orð falla á dögunum að það væri ágætt að geta bara kastað og kastað með fluguveiðistönginni án þess að fiskur biti á því þá væri maður ekki að tefja sig á að draga fiska á land......jarðvergurinn varð ennþá grýttari þegar ég fór að vitna í Pálma Gunnars og að hann eyddi löngum tíma á vorin í að æfa sig að kasta út í einhverjum ám án þess að vera með flugu á . Mér sem fannst þetta alveg eitursnjallt .
Jæja svo er búið að ákveða að ekkert aldurstakmark verði á tjaldstæðinu fyrir ungt fólk á Akureyri um verslunarmannahelgina. Þeir hafa sjálfsagt ekki getað misst stuðning Jóhannesar í Bónus en hann ætlaði ekki að styrkja hátíðina ef 23.ára aldurstakmarkið hefði verið sett á aftur eða það segir sagan allavega....Líst hinsvegar illa á að lengja skuli opnunartíma skemmtistaða til kl 05 um þessa sömu helgi og er því loksins sammála Elínu Hallgríms um eitthvað en rætt var við hana í útvarpi Norðurlands í gær. Held að þetta eigi eftir að auka ennþá á drykkju og ofbeldi sem nóg er af nú þegar.
Svo er það frétt sem birtist í 24 stundum í dag um að þriðjungur stúlkna á aldrinum 13-15 ára reyni að megra sig og krakkar niður í 8 ára aldur séu komin með átraskanir hér á landi. Guð hvað þetta er sorglegt. Held að við mæður verðum að fara að huga að því hvað við höfum fyrir dætrum okkar. Hjá sumum konum snýst lífið um kíló og hvað megi borða og hvað ekki og endalausu samviskubiti yfir því sem við látum ofan í okkur. Las nýlega bók þs íslensk stúlka lýsir því helvíti að vera með anorexíu og af lýsingunum að dæma var það sannkallað helvíti á jörð og bilið milli saklausrar megrunar og átröskunarsjúkdóma er ekki alltaf svo breitt.
Njótið helgarinnar og borðið mikið og vel án þess að samviskan sé að drepa ykkur á eftir....
15.7.2008 | 15:17
Allt er fertugum fært.....
Hann á afmæli í dag, hann á afmæli í dag, hann á afmæli minn heittelskaði, hann er fertugur í dag...... Já það eru mikil tímamót hjá mínum í dag og hvar er hann á þessum merka degi ? Jú auðvitað í vinnunni þessi elska. Sjúklingarnir hafa forgang, það þekkjum við sem vinnum innan sjúkrahúsveggjanna. En við ætlum að stela honum á eftir og eiga smá stund með honum.

Stelpurnar í vinnunni óskuðu mér til hamingju með karlinn og ég sagði svona á léttu nótunum hvort þetta væri nokkur hamingja að hann væri orðinn fertugur Þá datt uppúr einni þeirra að ég vildi nú líklega að hann næði fertugu en ekki og það eru orð að sönnu svo þetta er sannkölluð hamingja.
Læt fylgja með eina fína veiðimynd af afmælisbarninu þegar hann var ennþá á fertugsaldrinum en þarna er hann staddur á bökkum Héraðsvatna í Skagafirði.

Heimasætan og KA dömurnar skiluðu sér heim með silfur að Símamóti loknu. Frábær árangur en öll KA liðin í 6.flokki spiluðu til úrslita og tryggðu sér annað sætið. Til hamingju með þetta stelpur.
Skellti mér í kvikmyndahús á dögunum og fyrir valinu varð Mama mia. Þvílík mynd. Þetta var alveg frábær skemmtun og gamla góða Meryl Streep fór á kostum ásamt hópi annarra þekktra leikara. Mikill söngur, gleði og gaman og það sem var svo sérstakt var að leikarnir sungu sjálfir og kom það frábærlega út. Þetta er sko ekta stelpumynd en er samt eiginlega fyrir alla. Læt smá trailer fylgja fenginn að láni á youtube.com.
12.7.2008 | 22:09
Sætur sigur í Kópavoginum
Gott kvöld.
Nú verð ég bara að fá að státa af heimasætunni minni og stelpunum í KA 6.flokki B en þær urðu efstar í sínum riðli á Símamótinu í Kópavogi í dag. Sætasti sigurinn var þó kl 16 í dag en þá unnu þær erkióvinina í Breiðablik í undanúrslitum og keppa því til úrslita í 6.flokki á morgun. Frábær árangur hjá stelpunum. Frábær hópur, frábærir þjálfarar og stuðningsríkir foreldrar. Það var leiðinlegt að verða af þessu móti og missa af þessari glæsilegu frammistöðu stelpnanna. Hlakka til að hitta heimasætuna á morgun þegar hún kemur að sunnan og gefa henni stórt "klem"
.
9.7.2008 | 13:58
Fótbolti og fleira
Daginn !Kvaddi heimasætuna mína með tárum í morgun en hún var að fara á Símamótið í Kópavogi sem byrjar á morgun. Hún er sem betur fer í góðum höndum sem auðveldar þetta mikið. Dagskráin er þétt hjá þeim. Þær byrja á að taka æfingu með Haukum seinnipartinn í dag, þá ætla þessi lið að borða saman pitsu, gista saman og æfa aftur saman í fyrramálið. Já þetta er rétti íþróttaandinn !!!! Blikar gætu lært ýmislegt af þessum tveimur liðum......

Fótboltamótið sjálft hefst á morgun og stendur fram á sunnudag. Stelpurnar okkar þurfa að keppa við FH,Fjölni,ÍR, Reyni, ÍBV og Stjörnuna svo það má reikna með mikilli baráttu. En ég krossa bara fingurna og vona að allir skemmti sér vel í Kópavoginum. Áfram KA !!!!
Fór og horfði á leik KA og Stjörnunnar í 2.flokki (A deild) í gær en unglingurinn spilar með þeim. Minn var reyndar á bekknum sem mömmu gömlu þótti að sjálfsögðu fúlt en svona er þetta bara, hann hefur fengið að spila flesta leiki í sumar. KA piltar voru lengst af yfir 1-0 en fengu svo á sig mark í lok leiksins sem var grautfúlt því þeir voru búnir að vera betri allan leikinn. Já það verður bara sigur næst drengir.
En nóg um fótbolta.....Troddu þér nú inní tjaldið hjá mér...... hljómar nú á öldum ljósvakans. Ég vissi ekki hvort ég ætti að hlæja eða gráta fyrst þegar ég heyrði Þórsmerkurljóðið gamla í nýjum flutningi Megasar. Hugsaði með sjálfri mér. Hann hlýtur að hafa verið fullur þegar hann tók lagið upp. Þvílík nauðgun! Gerði heiðarlega tilraun til að syngja með kappanum áðan þegar lagið var spilað á rásinni en gat engan veginn fylgt með, svo heyrðist mér hann vera búinn að breyta textanum örlítið líka. En það virðist sem Megasi gamla sé fyrirgefið allt og eflaust líka í þetta skiptið.
Svo get ég ekki orða bundist yfir dómi piltsins sem örkumlaðist í mótorhjólaslysinu í fyrra en það var missir ökuleyfis í hálft ár. Hélt að lömun fyrir neðan háls væri nógu stór biti að kyngja og lítil hætta á að hann væri að flækjast úti í umferðinni núna en ég er náttúrulega enginn lögfræðingur né dómari og á sennilega aldrei eftir að sitja í þeirra sætum.....
Það
7.7.2008 | 21:16
Fótbolti og fluguveiði
Góðan og margblessaðan.Helgin leið hratt í góðra vina hópi og nokkrir kílómetrar voru lagðir að baki.
Fyrripart laugardagsins var keyrt að Sléttuhlíðarvatni og nýja fluguveiðistöngin var notuð í fyrsta skipti við réttar aðstæður. Þetta virkaði þokkalega auðvelt þarna í vetur þegar Pálmi ljúfurinn Gunnarsson kenndi mér og fleirum en þegar á hólminn var komið reyndist þetta aðeins flóknara.......Línan var þó langoftast útí vatninu en það má alveg ræða glæsileika kastanna....

Aflinn var líka lítill sem enginn hjá minni á meðan heimasætan mokaði honum inn á gömlu stöng föður síns ( já hún er sko alveg hundgömul því hann fékk hana þegar hann var tólf...). En mín gefst ekki upp, enginn verður óbarinn biskup og ég skal ná þessu hvað sem það kostar. Það auðveldaði mér nú ekki lífið að vöðlurnar mínar fínu sem kostuðu eitthvað milli 20 og 30 þúsund láku frá fyrstu mínútu og rennilásinn á fína veiðijakkanum sem kostaði eitthvað álíka bilaði. Fall er fararheill segir máltækið og verð ég að trúa því þangað til annað kemur í ljós....

Það var yndislegt að vera á Keldum (eyðibýli rétt við Sléttuhlíðarvatn) þs við lögðum fellihýsinu og viti menn að miðstöðin virkaði....Svaf reyndar ekkert sérstaklega um nóttina fyrir mikilli birtu, sól tófugargi og endalausum fuglasöng. Verð líklega að fjárfesta í myrkratjöldum og nokkrum pörum af eyrnatöppum fyrir næstu útilegu. Líklega væri ekki vitlaust að láta rifilinn liggja í bílnum líka.
Snemma á sunnudeginum var sett í fluggírinn til Siglufjarðar með heimasætuna á Hnátumót. Það gekk á með þoku og sól en endaði með heiðríkju á Hóli sem er fótboltasvæði Siglfirðinga.

Það var þó góður skammtur af hafgolu sem ég hélt reyndar að þekktist ekki á Sigló, Siglfirðingar segja nefnilega að hafgolan fari öll inn Eyjafjörðinn, sel það ekki dýrara en ég keypti það....Mótið fór vel fram og ekki kom til ryskinga...nei segi svona. Stelpurnar stóðu sig með mikilli prýði og unnu alla sína leiki og sungu sig inn í hjörtu flestra á staðnum.
3.7.2008 | 22:39
Loksins kom blíðan
Þetta er yndislegt líf..... Já loksins kom blíðan
hér norðan Alpafjalla eftir að við máttum þola marga daga með kulda, bleytu og snjó til fjalla.
Maður er loks að ná sér eftir volk síðustu helgar og þá er bara að pakka niður fyrir næsta mót sem er Hnátumótið á Siglufirði sem er á sunnudaginn. Til að nota ferðina ætlum við að fara á laugardeginum og veiða í Sléttuhlíðarvatni sem stendur skammt frá Hofsós. Þá fæ ég loksins að æfa mig með nýju fluguveiðistöngina og það verður sko sett fluga á í þetta skiptið. Eigum von á að urriðinn bíti grimmt á eftir veðurbreytingarnar. Fellihýsið verður að sjálfsögðu með í för og vonandi virkar miðstöðin því þarna er hvergi rafmagn að fá.
Á sunnudagsmorgninum brunum við síðan í Síldarbæinn Sigló þs KA dísirnar ætla að láta ljós sitt skína í fótboltanum. Áfram KA.
Nú hér á Akureyri stendur yfir eitt stærsta fótboltamót landsins þe N1 mótið ( 5.fl drengja þe 11 og 12 ára) og er bærinn stútfullur af fólki. Mömmurnar standa á hliðarlínunni og kyrja stuðningssöngva á meðan að pabbarnir segja guttunum til og skamma dómarann reglulega
. Svo heyrir maður sögur af foreldrum og þjálfurum sem ganga svolítið lengra, eitthvað sem við KA menn þekkjum frá Landsbankamótinum til sælla minninga......
Nú það rigndi hressilega á mótsgesti í gær og fótboltavellirnir voru vægast sagt rakir en svo kom sólin í dag og sunnanvindurinn til allrar hamingju . Samt má reikna með að vellirnir þurfi góða hvíld að þessari helgi lokinni.
Njótið lífsins í blíðunni og lifi boltinn......
Um bloggið
Gunnublogg
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (5.5.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Tónlistarspilari
Tenglar
Mínir tenglar
- Arnarsetrið Vefmyndavél af arnarhreiðri við Breiðafjörð,smellið á arnarsetrið sem er til vinstri á síðunni.
- Facebook.com
- Mokveiðifélagið Skagafirði Doktorinn,Magnum, Smiðurinn,Djammarinn og fleiri góðir
- Margrét
- Grétublogg
- Hjúkrunarfélag Íslands love,tender,care
- Líkamsræktin Bjargi Blóð,sviti og tár
- Kaupþing money,money,money.....
- Skólamáltíðir nammi,nammi,namm
- norskt dagblað norske nyheter
- Menntaskólinn á Akureyri menntun er máttur
- gamla góða Ríkissjónvarpið þetta gamla,góða
- Stangveiðifélag Akureyrar lax,lax,lax og aftur lax.....
- Fjársýsla ríkisins/vinnustund vaktirnar mínar
Bloggvinir
-
eurovision
-
heidistrand
-
ringarinn
-
jeg
-
jakobk
-
jenfo
-
jonaa
-
larahanna
-
sigro
-
seth
-
siggith
-
stebbifr
-
solskinsdrengurinn
-
tigercopper
-
kermit
-
postdoc
-
ossur40
-
ofurbaldur
-
bjarni
-
bjb
-
gattin
-
dunni
-
esv
-
hallgrimurg
-
heidathord
-
hlynurh
-
lax
-
kollakvaran
-
reisubokkristinar
-
palmig
-
ragjo
-
sedill
-
sesdoc
-
svavaralfred
-
nautabaninn