21.2.2012 | 17:35
Sæludagar
Ó hvílíkir sæludagar á þessum síðustu og verstu tímum !!!!
Bolludagurinn heilsaði formlega í gær en öll þjóðin var jú farin að gúffa í sig bollum löngu fyrir helgi. Lenti í rjómabollum hjá vinkonunni á föstudaginn, át bollur heima hjá mér á laugardaginn og hjá tengdó á sunnudaginn. Svo þegar sjálfur bolludagurinn rann nú loksins upp að þá var nú ekki hægt að neita sér um eina gómsæta eða jafnvel tvær.
Nú maður var rétt farinn að jafna sig eftir bolluátið þegar sprengidagurinn rann upp bjartur og fagur. Baunirnar búnar að liggja í bleyti síðan í gær og því orðnar meirar og fínar og ekta jökuldælskt saltkjöt fór beint úr kútnum í pottinn og kraumar nú ljúflega við hliðina á baununum. Ilmurinn af herlegheitunum er indæll og kemst næst angan af jólahangikjetinu. Vona bara að ég eigi afgang á morgun......
Prinsessukjóll litlu líunnar píunnar minnar hangir klár fyrir morgundaginn en hún fer nú sína fyrstu ferð niður í miðbæ til að syngja ásamt litlu spekingunum í leikskólanum hennar.
Eitthvað hefur nú öskudagsáhugi heimasætunnar dalað enda komin á þrettánda ár með vel virka hormónastarfsemi. Enginn tími til æfinga, brjálað að gera á fjésbókinni og skypinu og auðvitað í boltanum.... hef þó hlerað að hún og vinkonurnar ætli að vera kisur og syngja gulur, rauður, grænn og blár..... sel það ekki dýrara en ég keypti það....
En hvað sem söngæfingum og öskudagsbúningum líður að þá eru þetta ljúfir dagar og minna okkur á að komið er fram á seinni hluta vetrar og vorið ekki svo langt undan .... nema að það komi jafn seint og í fyrra....
Eigið ljúft sprengidagskvöld og yndislegan öskudag gott fólk .
30.1.2012 | 13:22
Svartur blettur veldur usla
Góðan og blessaðan daginn sem rann upp seint og um síðir bjartur og fagur eins og svo oft áður hér norðan Alpafjalla.
Eftir fótaferðatíma brunaði mín í ræktina að venju. Prógramm númer eitt varð fyrir valinu. Nú skyldi þorramatnum sem vömbin var kýld með um helgina brennt í eitt skipti fyrir öll. Dvaldi dágóða stund á skíðavélinni og var komin langleiðina uppí Hlíðarfjall þegar ég skipti yfir í stigvélina og lét mig dreyma um Súlutind. Þá voru lóðin dregin fram hvert öðru þyngra og hlaðið á stangirnar og tækin reynd eitt af öðru. Í miðju prógramminu tók ég eftir að augu ýmissa fóru að liggja á mér og hélt náttúrulega að það væri vegna minnar óþrjótandi fegurðar og útgeislunar... þangað til að einn af stöðvargestunum gekk að mér og benti á nefið á sér. Ég var auðvitað með tól í eyrunum og í miðju Muse lagi og horfði á nefið á henni skilningsvana og sá svo sem ekkert athugavert við það. Ákvað því að setja Muse á hold og þá kom kaldur sannleikurinn í ljós þegar gesturinn sagði hátt og skýrt: Það er eitthvað svart á nefinu á þér . Við nánari skoðun var það ekki aðeins nefið sem var svart heldur fingur flestir og fíni hvíti bolurinn minn sem minn heittelskaði keypti í Ameríkunni . Ég þakkaði auðvitað gestinum fyrir upplýsingarnar og að koma í veg fyrir fleiri augnagotur og snautaði skömmustuleg að næsta vaski og þvoði af mér smurningsblettina sem mér hafði tekist að krækja í, í einhverjum tækjanna. Eftir að hafa jafnað mig á uppákomunni og staðreyndinni að þessi bölvaði svarti blettur á nefinu á mér hefði dregið augun að mér en ekki mín "óþrjótandi fegurð og dugnaður í ræktinni"....., hélt ég áfram með prógrammið og gaf aðeins meira í, því betur má ef duga skal.....
Eigið góðan dag í ræktinni kæru vinir og hvar sem þið eruð
18.1.2012 | 18:23
Handboltahiti
Gott kvöld gott fólk.
Þá er stóri dagurinn runninn upp . Í kvöld mæta strákarnir okkar strákunum í Noregi . Leikir þessara þjóða hafa fengið nýja merkingu eftir að ég bjó sex ár í Noregi. Sigrarnir verða sætari og töpin verða sárari. En ég treysti á íslensku strákana. Held að þeir muni taka þetta í kvöld. Í þessum skrifuðu orðum sit ég og horfi á leik Slóvena og Cróata. Það er svo auðvelt að detta inní þetta og gleyma sér yfir leik og áður en maður veit af er maður farinn að fagna eða sótbölva og halda með öðru hvoru liðinu sem er að þessu sinni eru Slóvenar. Húsverkin verða bara að bíða betri tíma . Næstu dagana verður handboltahiti á mínu heimili . Áfram Ísland !!
17.1.2012 | 18:22
Tvöþúsund og tólf runnið upp
Heil og sæl og gleðilegt ár með þökk fyrir það gamla.
Það er víst ofnotuð lumma að segja að tíminn líði hratt en sönn engu að síður. Árið 2011 leið sannarlega fljótt og nokkuð vel. Fjölskyldan brallaði ýmislegt að venju og eins og oft áður komu veiði og fótbolti þar ríkulega við sögu.
Heimasætan sem fyllir nú orðið 12 árin upplifði toppinn á fótboltaferlinum hingað til. Hún og stöllur hennar í 5. flokki KA fóru í júní s.l á vit ævintýranna til Eyja á Pæjumót og uppskáru sannarlega vel. Í stuttu máli þá hirtu þær allar flottustu medalíurnar sem í boði voru. Heimasætan var m.a valin í Pressuliðið og efnilegast keppandi mótsins sem þó hýsir 700 stelpur og öll sterkustu lið landsins. Þetta var stór rós í hnappagatið fyrir hana enda búin að leggja mikið á sig við æfingar s.l ár.
Erum við virkilega stolt af henni. Þetta sama lið komst einnig langt á Íslandsmótinu en þar spiluðu þær úrslitaleikinn á móti Val á Hlíðarenda en þurftu reyndar að lúta í lægra haldi en glæsilegur árangur engu að síður.
Litla skruddan okkar endaði árið með því að missa tönn og stuttu síðar missti hún aðra. Semsagt talsverð útgjöld hjá tannálfinum í lok árs og eins gott að hann var ekki búinn með sjóðinn sinn. Sú stutta fullorðnaðist heilmikið við tannmissinn og skipuleggur skólagöngu sína sem hefst næsta vetur. Stóra spurningin er hvort stóra systir vilji leyfa henni að verða samferða sér í skólann næsta haust .
Það er alltaf sami brennandi áhuginn á sauðkindinni og hefur hún fengið ríkulega af þeim genum frá móður sinni. Það ríkti mikil sorg á heimilinu þegar kom í ljós að ærin okkar Prinsessa í Hnefilsdal ásamt 35 öðrum skiluðu sér ekki af fjalli síðla hausts. En ærnar fundust svo loksins 17.des inná heiði hálffenntar og klakabarðar og voru fluttar heilar heim fyrir utan eina. Þessi fundur var sannarlega jólagjöfin í ár.
Unglingurinn sem orðinn er rígfullorðinn lagði land undir fót eða réttara sagt lagði heiminn að fótum sér ásamt unnustu sinni en þau héldu á vit ævintýranna til London í gærmorgun og þaðan liggur leiðin til Tælands.
Heimför er ekki áætluð fyrr en í vor en þá verða þau búin að heimsækja þrjár heimsálfur. Þegar ég hugsa til baka finnst mér þetta svolítið skondið því ég var víst orðin fullra átján vetra þegar ég kom fyrst til Reykjavíkur. Já tíminn líður ekki bara hratt heldur breytast tímarnir líka og mennirnir með og er það vel.
Við gömlu stýrin stóðum vaktina síðasta árið. Þess á milli sinntum við börnum og búi. Eltum heimasætuna á ófá fótboltamótin sem alltaf er gaman og gefandi.
Þá gafst líka tími til stangveiði og fórum við í flottan laxveiðitúr austur á Jöklusvæðið þar sem við fengum 13 stóra og flotta laxa. Sannarlega vaxandi laxveiðsvæði það og ekki spilllir fyrir að þetta er í átthögunum.
Frúin fór einnig oft í Hörgá í sjóbleikjuveiði og kom með í soðið heim.
Svo var bara allt í einu komið nýtt ár með nýrri tölu með nýjum áskorunum og nýjum væntingum.
Vonandi komumst við vel frá því. Með þeim orðum kveð ég að sinni og óska ykkur alls hins besta á því herrans ári tvöþúsund og tólf.
2.11.2011 | 18:43
Landsbyggðapælingar í stól klippikonunnar ;-)
Góðan og blessaðan daginn !
Í dag fór ég á hárgreiðslustofu. Það er svosem engin nýlunda því það geri ég á uþb á 2 mánaða fresti því annars yrði ég gráhærð í orðsins fyllstu merkingu og það gengur ekki þegar maður er á besta aldri eins og ég..... . Það tekur reyndar ekki neinn eftir því að ég er nýklippt og lituð svo kannski maður ætti bara að spara sér þessar krónur.... Þegar ég ég segi "ekki neinn" ýki ég nú kannski aðeins en á þá helst við minn heittelskaða í þessu efni. Það skal tekið skýrt fram að ég segi alltaf við hann þegar hann er búinn að fara til rakarans með sitt litla hár að hann sé fínn . En nóg af þessu, lífið heldur áfram. Og aftur af því sem ég ætlaði að tala um í upphafi.... Semsagt þegar ég sit þarna í stólnum og fletti glanstímaritunum sem ég aldrei tími að kaupa og hárin týnast af mér eitt og eitt förum við þe ég og klippikonan að tala um hvað þau Andri og Gunna á Rás 2 séu nú aldeilis skemmtileg og vel þess virði að hlusta á þau. Veltum þessu fyrir okkur og klippikonan vildi meina að þau væru skemmtileg vegna þess að þau væru bæði utan af landi..... held reyndar að hún hafi ekki átt við að Reykvíkingar væru leiðinlegir heldur að landsbyggðatúttur sem búa í borginni muni frekar eftir okkur hinum túttunum sem ekki fluttu til höfuðborgarinnar og þegar þær vinna í útvarpi eins og þetta góða fólk, sníði þau dagskrána svolítið eftir því. Jú það gæti vel verið.
Nú þegar við fórum að tala um landsbyggðina versus höfuðborgina varð ég nú að rifja upp söguna af aldraðri frænku minni sem fór í fyrsta skipti til Reykjavíkur á gamalsaldri til að leyta sér læknishjálpar, hefði líklega ekki farið að öðrum kosti. Yngri frænka okkar beggja komst að þessu og býsnaðist öll ósköpin yfir því að gamla frænkan hafði virkilega ekki komið til Reykjavíkur fyrr. Eldri frænkan skyldi nú ekkert í þessu og fannst þetta ekkert merkilegt og spurði þessa yngri hvort hún hefði nokkuð komið í sína sveit fyrr ? Svo var ekki og fannst gömlu frænkunni það jafn merkilegt og að hún hefði ekki til Reykjavíkur komið fyrr en á efri árum.
Ég var reyndar orðin 18 ára gömul þegar ég heimsótti höfuðstað Íslands í fyrsta skipti. Ég var nú meira upptekin af þessu en gamla frænka hér fyrir ofan og mér fannst þetta svolítið hallærislegt og hafði ekki hátt um það á þessum tíma.
En tímarnir breytast og mennirnir með og nú ferðast ungdómurinn oft á ári til höfuðborgarinnar og það er frekar að hann skammist sín fyrir að hafa ekki komið til útlanda eða farið í heimsreisu. Ekki sjaldan sem heimasætan nauðar um utanlandsferð og segir að það séu bara allir vinir sínir farið til útlanda nema hún..........
Jæja þetta voru svona smá landsbyggðapælingar. Velferðarráðherra ákvað allavega að heiðra okkur með nærveru sinni hér Norðan alpafjalla í dag og heimsótti starfsfélaga mína. Vonandi hefur hann séð að sjúkrahúsin úti á landi skipta líka máli og þá þjónustu viljum við seint sækja alla til höfuðborgarinnar.
Eigið gott miðvikudagskvöld og munið þ.e Greys kvöld í kvöld
10.10.2011 | 19:35
Úbs !
Slæm veðurspá fyrir norðan | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
10.10.2011 | 19:20
Appelsínugulir eyrnatappar
Góðan og blessaðan daginn ágætu bloggheimavinir. Liðin heil árstíð og mörgum fiskum verið landað síðan mín skráði sig hér inn en nú skal bætt fyrir syndir síðustu mánaða.
Margur hefur líklega bölvað mánudeginum sem brostinn er á en í mínum augum var hann gleðilegur og tákn um að næturvaktahrinu helgarinnar var lokið. Ekki það að mér finnist ekki gaman í vinnunni en það er bara þetta með að snúa sólarhringnum við sem farið er að fara illa í minn kropp og í mína sál, því hvorugt yngist jú með árunum. Svo er eitthvað svo óskaplega lítið eggjandi og óspennandi að vakna með appelsínugula eyrnatappa standandi útúr hausnum "bilateralt" eins og einhver geimvera eða eitthvað þaðan af verra. Svo ekki sé talað um særindin í eyrunum en til þess að ná nú örugglega að sofa af sér eril heimilisins og vera klár fyrir næstu vakt var þeim líklega troðið fulllangt og harkalega. En það nær nú líklega að gróa áður en minn heittelskaði kastar sér niður á hnén og biður mín. Nei, nei þetta er engin pressa ;-).
Fjölskyldumeðlimir hafa dafnað vel s.l mánuði og nú er svo komið að litla skrudda sem hefur elst með ólíkindum hratt er flutt úr "fjölskyldurúminu" og komin með sitt eigið slott.
Þessir hreppaflutningar kostaðu reyndar unglinginn minn sem varla telst nokkur unglingur lengur kominn á 21.aldursár herbergið hans en hann er nú að mestu horfinn úr hreiðrinu, stundar sjóinn með föður sínum vestur á fjörðum og nemur í Háskólanum á Akureyri í fjarnámi.
Ónefnd er heimasætan sem óðum er að taka upp unglingatakta bróður síns. Hennar líf snýst áfram um fótbolta og stefnan er sett hátt þegar hann er annarsvegar. Metið í að "halda á lofti" er nú komið í 190 ef ég man rétt .
Til að fylla uppí örfá ónotuð skörð að deginum er hún nú farin að æfa handbolta líka. Já varla nokkur ástæða til að hafa áhyggjur af æsku landsins ef hún er í þessum farvegi.
Semsagt ljúfur mánudagur hjá minni þrátt fyrir kulda og trekk hér norðan heiða og kertin loga glatt og lýsa upp skammdegismyrkið sem smátt og smátt er að hellast yfir okkur. Eigið gott mánudagskvöld í bjarma kertaljósanna ;-)
1.5.2011 | 21:55
Lífið er yndislegt
Heil og sæl. Já lífið er yndislegt þessa dagana. Það er ekki nóg með að í dag hafi verið rjómablíða í höfuðstað Norðurlands og sannkallað vor í lofti heldur tókst piltunum okkar í handboltanum að stöðva sigurgöngu Hafnfirðinga og senda þá aftur suður í 16 sm snjóalögin með skottið á milli fótanna. Það gerði daginn líka ennþá betri að mínir menn í Liverpool héldu áfram sigurgöngu sinni á meðan að Unitedprinsarnir áttu tapleik og halda því spennunni áfram á lofti í ensku úrvalsdeildinni sem er náttúrlega bara hið besta mál.
28.4.2011 | 12:18
Vorboðinn ljúfi
Heil og sæl öll ! Ósköp er langt síðan ég kom einhverju hér á blað, veit ekki hvort mætti kalla það ritstíflu eða kannski var það bara tímaleysi sem hrjáir svo mörg okkar.
Vorboðarnir keppast um að minna á sig þessa dagana. Fyrir fáeinum dögum vaknaði ég við lóusöng og í morgun var runnaklipparinn mættur á svæðið og gerði runnana mína höfðinu styttri. Ef þetta hefði verið í þáttaröðinni Aðþrengdar eiginkonur hefði sá hinn sami eflaust verið fáklæddur, með stinna vöðva og sólbrúnni en allt sem sólbrúnt er og hefði blikkað mig ótt og títt en þessi var hinsvegar veldúðaður, bísna hvítur á hörund,með vöðva í meðallagi og gaf ekkert færi á augnsambandi enda kaldur,íslenskur raunveruleiki staðreyndin en ekki amerísk sjónvarpsefni .
En aftur að vorboðunum því þeir eru fleiri sem hafa bankað uppá. Um miðjan dag í gær heyrðust neyðaróp frá dætrum mínum úr stofunni því innum svaladyrnar hafði randafluguferlíki komið og tekið sér bólfestu í stofuglugganum. Nú voru góð ráð dýr því mikil hræðsla greip um sig. Ég hafði nú ekki kjark í að farga ræflinum þó svo ég sé alin upp í sveit og þar var dýrum fargað hvort sem manni líkaði betur eða verr en ákvað að skella glasi yfir þessa drottningu drottninganna til að róa mannskapinn og sýna að mamma gamla hefði stjórn á aðstæðum en pabbi gamli var auðvitað á vaktinni. Þá var líka hægt að virða óskapnaðinn fyrir sér. Ég reiknaði eiginlega með að kvikindið myndi gefa upp öndina innan fárra tíma og ég gæti laumað líkinu í klósettið í húmi nætur og þar með væri vandamálið úr sögunni og ég slyppi við stanslausa umferð randafluga út á palli hjá mér í sumar. En þetta plan mitt hrundi skömmu eftir að húsbóndinn kom heim. Hann hélt heilu ræðurnar um að maður ætti að vera góður við dýrin og bla,bla. Hann er nefnilega alinn upp í Mokveiðifélaginu þar sem menn veiða og sleppa löxunum og hefur greinilega yfirfært það á skordýrin líka. Hann hélt þó lengi að sér höndum og lét flikkið undir glasinu vera en strax og mín var farin til hvílu en ég er með eindæmum kvöldsvæf og það veit hann, lét til skarar skríða og veitti skollans randafluguferlíinu frelsi. Í svefnrofunum hljómaði þetta einhvernveginn svona frá dóttur minni sem er á 5.ári: " Mamma, mamma pabbi hleypti randaflugunni út.......". Svona fór um sjóferð þá og svo er bara að sjá hvort drottningin mæti undir pallinn minn og fjölgi skordýrakyninu og ef svo fer skal ég lofa ykkur að húsbóndinn verður minntur á það reglulega.
Eigið góðan dag með vorboðunum.
9.1.2011 | 11:14
Ferguson tjáir sig.
Hann hefur líklega lagt fram margt vitlausara um ævina en þetta. Menn þurfa líklega meira en hálft ár til að sanna sig. En sennilega er þetta einhver taktikk hjá Ferguson fyrir stórleikinn á eftir.
Ferguson: Sorgleg niðurstaða | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Um bloggið
Gunnublogg
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 4
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 4
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Tónlistarspilari
Tenglar
Mínir tenglar
- Arnarsetrið Vefmyndavél af arnarhreiðri við Breiðafjörð,smellið á arnarsetrið sem er til vinstri á síðunni.
- Facebook.com
- Mokveiðifélagið Skagafirði Doktorinn,Magnum, Smiðurinn,Djammarinn og fleiri góðir
- Margrét
- Grétublogg
- Hjúkrunarfélag Íslands love,tender,care
- Líkamsræktin Bjargi Blóð,sviti og tár
- Kaupþing money,money,money.....
- Skólamáltíðir nammi,nammi,namm
- norskt dagblað norske nyheter
- Menntaskólinn á Akureyri menntun er máttur
- gamla góða Ríkissjónvarpið þetta gamla,góða
- Stangveiðifélag Akureyrar lax,lax,lax og aftur lax.....
- Fjársýsla ríkisins/vinnustund vaktirnar mínar
Bloggvinir
- eurovision
- heidistrand
- ringarinn
- jeg
- jakobk
- jenfo
- jonaa
- larahanna
- sigro
- seth
- siggith
- stebbifr
- solskinsdrengurinn
- tigercopper
- kermit
- postdoc
- ossur40
- ofurbaldur
- bjarni
- bjb
- gattin
- dunni
- esv
- hallgrimurg
- heidathord
- hlynurh
- lax
- kollakvaran
- reisubokkristinar
- palmig
- ragjo
- sedill
- sesdoc
- svavaralfred
- nautabaninn